Það mun hafa verið um sumarið eða snemma vors árið 1981 sem ég fór á vikunámskeið að Bifröst. Þar voru aðalkennararnir þeir Þórir Þorvarðarson og Þórir Páll Guðjónsson. Þetta námskeið var um margt eftirminnilegt en ég ætla ekki að fjalla um það hér.
Um þessar mundir var ég búsettur að Hrafnakletti 6 í Borgarnesi. Þegar ég kom af námskeiðinu frétti ég að Brynjar Ragnarsson, sem átti heima á hæðinni fyrir neðan mig (ég var í fjögurra herbergja íbúðinni á efstu hæðinni) hefði keypt myndband fyrir stigaganginn í blokkinni af Akai-gerð. (Með píanótökkum.)
Þó sameiginlegt loftnetskerfi fyrir sjónvarp væri í stigaganginum var ekki svo einfalt að tengja myndbandið þar við svo allir í blokkinni gætu notið þess. Það hafðist þó og kannski vegna þess að ég var frekastur þeirra sem í blokkinni bjuggu á þeim tíma, þá lenti það aðallega á mér að sjá um myndbandið og rekstur þess.
Fyrst í stað varð að hafa myndbandið uppi á háaloftinu, en þannig var það aðeins í mjög stuttan tíma minnir mig. Smíðaður var kassi þar sem hafa mátti myndbandstækið og nokkrar spólur. Honum var komið fyrir við innganginn í íbúðina sem ég hafði fengið leigða hjá Kaupfélaginu. Til eru myndir af þessum kassa og hann varð svo frægur að myndir af honum birtust í útlendum blöðum.
Tilkynningar um dagskrá voru settar upp við innganginn í blokkina. Stigagangurinn fjær götunni var ekki með í þessu frá upphafi enda ekki fullfrágenginn. Fljótlega komu upp raddir um að dreifa víðar því efni sem fengið var að láni á videóleigum eða tekið upp á vél sem Leikfélagið í Borgarnesi átti.
Haustið 1981 var Sandvíkin og Höfðaholtið tengt við kerfið hjá okkur og ári seinna húseignir við Kveldúlfsgötu og víðar. Um þetta allt má lesa í „Félagstíðindum“ sem Björgvin Óskar Bjarnason tók saman og dreifði í nóvember 1986, en þá var ég fluttur frá Borgarnesi og afskiptum mínum af ÚSVB lokið.
Fengur væri að því fyrir sögu ÚSVB (ef hún þykir það merkileg.) að fá upplýsingar um myndbandstækið og fleira því tengt hjá Brynjari Ragnarssyni.
Sæmundur Bjarnason